Jesús tekinn höndum (Jóh 18.1-14)
Bakgrunnsupplýsingar:
Skoðið kort af Jerúsalem og finnið Kidron-dalinn og Getsemane. Þeir sem komu að handtaka Jesú voru flestir gyðingar sem voru musterisverðir. Hvað Júdas varðar flettið upp Jóh 12.6. Nokkrum dögum eftir atburðina sem hér er lýst stytti hann sér aldur.
1. Ímyndaðu þér hvernig líf Júdasar í félagsskap með Jesú síðastliðin þrjú ár gæti hafa verið. Hvers konar góða reynslu og upplifanir gæti hann hafa átt? Hvað með vonbrigði? Svör við þessum spurningum er ekki að finna í textanum.
• Heldur þú að Jesú hafi þótt jafnvænt um Júdas og aðra lærisveina sína? Útskýrðu svar þitt.
• Trúði Júdas á kærleika Jesú? Hvers vegna eða hvers vegna ekki?
2. Hvers vegna heldur þú að Jesús hafi látið Júdas geyma peninga fyrir hópinn? (Jóh 12.6)
• Hvernig getur peningagræðgi náð slíku valdi yfir manneskjum?
• Í hvaða aðstæðum myndir þú mögulega svíkja Jesú og kristna trú þína?
3. Hvers vegna heldur þú að Jesús hafi verið handtekinn að kvöldi til en ekki um hábjartan dag?
• Ímyndaðu þér atburðina í Getsemanegarðinum mitt á milli ólífutrjánna: fótatakið í myrkrinu, síðan ljós af kyndlum, hróp og köll ... Hverjir virðast vera hræddir í þessum aðstæðum og hver virðist þér vera hugrakkur? (3.-6. vers)
4. Hvers vegna steig Jesús sjálfviljugur fram út úr myrkrinu og gaf sig fram við þá sem vildu handtaka hann? (4. vers)
• Þegar Jesús segir: „Ég er hann“, þá nefnir hann um leið nafn Guðs. (Yahweh = ég er sá sem ég er.) Hvers vegna féllu þeir sem komu til að handtaka hann til jarðar við að heyra þetta? (6. vers)
5. Af hverju hafði Jesús mestar áhyggjur meðan á handtökunni stóð?
• Vers 8 og 9 lýsa „guðdómlegri skiptingu“. Jesús kom í stað syndara og hlífði þeim þar með við reiði Guðs. Ímyndaðu þér Jesú að segja orðin í 8. versi fyrir framan Satan sem bendir á þig og fólkið sem er þér kært. Hver verður merking þessara orða þegar þú lest þau á þennan hátt?
6. Hvað gekk Pétri til þegar hann beitti sverðinu? (10. vers)
• Önnur guðspjöll segja frá því að Jesús, í sínu síðasta kraftaverki, hafi læknað eyra Malkusar. Hvers vegna gerði hann það?
• Hvernig heldur þú að Malkus hafi sagt fjölskyldu sinni frá atburðum kvöldsins?
7. Stuttu áður hafði Jesús beðið föður sinn þrisvar sinnum að taka frá sér bikar þjáningarinnar. Hvers vegna tók hann núna við honum af fúsum og frjálsum vilja?
• Hver bauð að Jesús skyldi þola allt þetta? (11. vers)
• Gætir þú talað á sama hátt um þína eigin erfiðleika/þjáningar og Jesús gerði í 11. versi?
• Hvaða máli skiptir hvaðan þjáningin kemur: frá Satani, vondu fólki eða þínum himneska föður?
Glad Tidings-hugleiðing:
Bikarinn í 11. versi innihélt allar syndir og óhreinleika heimsins, alla grimmdina sem fjölmiðlar segja okkur frá á hverjum degi. (Sjá Op 17.4) Með því að drekka úr bikarnum er eins og Jesús hafi hellt í sjálfan sig öllum þeim sora og hann varð hluti af honum. Þannig varð Jesús staðgengill fyrir hvern einasta syndara á jörðinni, þar með talinn þig.
***
Downloads
Contact us
Webmaster